Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
9. apríl 2015

Zymetech hlýtur Nýsköpunarverðlaun Íslands 2015

Zymetech hlýtur Nýsköpunarverðlaun Íslands 2015
Fyrirtækið Zymetech hlaut Nýsköpunarverðlaun Íslands sem afhent voru á Nýsköpunarþingi í morgun. Ágústa Guðmundsdóttir prófessor við HÍ og rannsóknastjóri Zymetech veitti verðlaununum viðtöku.
Fyrirtækið Zymetech hlaut Nýsköpunarverðlaun Íslands sem afhent voru á Nýsköpunarþingi í morgun, en Zymetech er leiðandi íslenskt líftæknifyrirtæki á sviði rannsókna, þróunar, framleiðslu og sölu náttúrulegra sjávarensíma til hagnýtingar í húðvörur, lækningatæki og lyf. Ágústa Guðmundsdóttir prófessor við HÍ og rannsóknastjóri Zymetech veitti verðlaununum viðtöku.
 
Efni þingsins að þessu sinni var Frá frumkvöðli til alþjóðamarkaðar og sóttu rúmlega 200 manns þingið, sem haldið var á Grand hótel Reykjavík.
 
Zymetech nýtir meltingarensím úr Norður-Atlantshafsþorski og hefur tekist að skapa verðmæta viðbótarafurð úr hráefni sem í gegnum tíðina hefur að langmestu leyti verið fargað. Þannig hefur fyrirtækið þróað afurð sem margfaldar virði þorsksins. Mikil rannsóknarvinna liggur að baki þeirri tækni sem tryggir virkni ensímanna og viðheldur stöðugleika þeirra. Byggt á þessari tækni hefur Zymetech þróað efnablönduna Penzyme®, sem er virka efnið í vörum fyrirtækisins. 
 
Zymetech framleiðir margs konar húð- og snyrtivörur sem seldar eru undir ýmsum vörumerkjum samstarfsaðila fyrirtækisins, auk Pensim áburðarins sem er sennilega þekktasta vara þeirra hér á landi. Fyrirtækið vinnur nú að þróun lækningavara til meðhöndlunar á sértækum húðkvillum á borð við bólgur, útbrot, sprungna húð og til sáragræðinga. Nýjasta afurð Zymetech er lækningavaran PreCold, munnúði til varnar kvefi, en klínískar rannsóknir sýna fram á að fækka má veikindadögum af völdum kvefs um allt að helming ef munnúðinn er notaður reglulega meðan einkenni kvefsins vara eða sem fyrirbyggjandi.

Nýsköpunarverðlaun Íslands 

Nýsköpunarverðlaun Íslands eru veitt af Rannís, Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, til fyrirtækja sem þykja hafa skarað fram úr í þróun nýrrar vöru eða þjónustu, sem byggð er á rannsóknar- og nýsköpunarstarfi og náð hefur árangri á markaði. Verðlaunin hafa verið veitt síðan árið 1994 og er tilgangur þeirra að vekja athygli á þeim mikilvægu tengslum sem eru á milli rannsókna og þekkingaröflunar og aukinnar verðmætasköpunar í atvinnulífinu. 
 
Við val á verðlaunahafa er litið til þess hvort um sé að ræða nýtt sprotafyrirtæki, hvort það sé byggt á nýskapandi tækni og hugmynd og sé kröfuhart á þekkingu. Þá er lagt mat á virðisauka afurða og hvort fyrirtækið hafi náð árangri á markaði. Metið er hvort líkur séu á að fyrirtækið haldi velli og hvort stjórnun nýsköpunar sé til eftirbreytni. Að lokum er metið hvort fyrirtækið sé hvatning fyrir aðra að feta sömu slóð.
 
Starfsfólk Zymetech ásamt Ragnheiði Elínu, iðnaðar- og viðskiptaráðherra
 
 

Deila