Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
24. maí 2017

Engar skáldsögur af íslenskum mat

Engar skáldsögur af íslenskum mat
Á fundi Íslandsstofu sem haldinn var í dag 23. maí var kynnt greining á ásýnd og umfjöllun um íslensk matvæli á vef- og samfélagsmiðlum. Umfjöllunin er almennt jákvæð, fyrir utan það að hefðbundni eða gamli íslenski maturinn fellur útlendingum ekki í geð, Áhugaverðar sögur sem miðast við áhugasvið fólks er leiðin til að ná athygli og fólk tekur meira mark á umsögnum vina og áhrifavalda (influencers) sem deila upplifun sinni en á því sem fyrirtækin senda frá sér.

Vefsíður og samfélagsmiðlar gegna sífellt stærra hlutverki í upplýsingaleit neytenda og gildir það einnig um mat og matarmenningu. Mikilvægt er fyrir Ísland að nýta sér þá þróun til að auka vitund um og áhuga á íslensku hráefni, mat og matarmenningu á erlendum vettvangi og meðal erlendra ferðamanna sem sækja landið okkar heim.

Á fundi Íslandsstofu sem haldinn var þann 23. maí var kynnt greining á ásýnd og umfjöllun um íslensk matvæli á vef- og samfélagsmiðlum. Það var breska fyrirtækið M2Bespoke sem vann þessa greiningu. Hægt er að skoða skýrsluna sem gefin var út hér á vefnum. Sjónum var beint að þremur mörkuðum: Bretlandi, Bandaríkjunum og Þýskalandi. Þetta eru markaðir sem íslensk matvælafyrirtæki vilja helst beina sjónum sínum að í markaðssókn skv. könnun Íslandsstofu.

Ben Hollom framkvæmdastjóri fyrirtækisins fór yfir helstu niðurstöður og tækifæri sem íslenski matvælageirinn getur nýtt sér. Hann sagði umfjöllunina almennt jákvæða, fyrir utan að hefðbundni eða gamli íslenski maturinn (hákarl, þorramatur, svið o.þ.h.) felli útlendingum ekki í geð og því deildu þeir á samfélagsmiðlum. Þróunin er sú að þátttaka neytenda í miðlun upplýsinga fer vaxandi, útlit er fyrir að video verði allt að 70% af efni sem miðlað er á internetinu og mikilvægi farsíma vex stöðugt. Áhugaverðar sögur sem miðast við áhugasvið fólks er leiðin til að ná athygli og fólk tekur meira mark á umsögnum vina og áhrifavalda (influencers) sem deila upplifun sinni, en á því sem fyrirtækin senda frá sér.

"Food trends" eða þróunin er í þá átt að fólk leitar í vaxandi mæli eftir lífrænum, heilsusamlegum afurðum og er tilbúið að greiða meira fyrir þær. Tími stóru vörumerkjanna er liðinn - eða í það minnsta stýra þau ekki þróun líkt og var - og minni vörumerkin sem hafa ákveðin sérkenni (authentic, speciality foods) fá meiri athygli. Ben telur það mikilvægt að fylgja eftir góðri kynningu á mat og matarmenningu sem miðuð er að ferðamönnum, og hjálpa þeim að kaupa og njóta íslenskra matvæla þegar heim er komið.

Daði Guðjónsson lýsti því hvernig auka má slagkraft í kynningarstarfi með samstarfi, og lýsti stefnu og aðferðum í kynningu ferðaþjónustunnar á samfélagsmiðlum undir merkjum Inspired by Iceland. Unnið er eftir skýrri stefnu, búið er að skilgreina hljómfall skilaboðanna, hvaða sögur er verið að segja, hverjum, hvenær, hver á að segja sögurnar og hver á að hlusta. Sett eru markmið í samstarfi við hagaðila, árangur af aðgerðum mældur og endurmat á sér stað reglulega.

Guðný Steinsdóttir rakti hvernig MS vinnur á samfélags- og vefmiðlum við að kynna skyrið fyrir erlendum ferðamönnum á Íslandi og á breska markaðinum. Öll kynning er samhæfð og unnin undir slagorðinu „Iceland‘s secret to healthy living“. Hún segir ferðamenn sem kynnst hafa skyrinu hér á landi, sækjast eftir skyri sem framleitt eftir íslenskum aðferðum þegar heim er komið. Árangur af herferð sem unnin var árið 2016 í Bretlandi var mjög góður, og salan var umfram væntingar í verslunum Waitrose. Kynningin fólst í samspili vefauglýsinga (youtube og google), greinaskrifa um skyr, bloggi, kynningum á vettvangi o.fl.

Viggó Örn Jónsson hjá Jónsson & Le´Macks fjallaði um efnismiðlun og stefnu fyrir vörumerkið Icelandic Lamb. Viggó sagði eitt áhrifamesta formið, til þess að koma skilaboðum til neytenda og segja söguna á bak við matvæli, vera myndbönd. Með þeim er hægt að færa neytandann nær uppruna vörunnar og gæða söguna meira lífi. Mikilvægt er fyrir fyrirtæki að setja ákveðinn svip á myndböndin svo neytendur átti sig á því frá hverjum það er, þegar horft er á það utan vefsíðu fyrirtækisins t.d. á Youtube. Hann sagði það afar mikilvægt að segja sannar sögur og skáldskapur væri ekki vænlegur til árangurs, þvert á móti.

Guðný Káradóttir sagði frá leyndarmáli íslenska þorsksins - markaðssamstarfi um markaðssetningu íslenska þorsksins í Suður-Evrópu, og árangursríku samstarfi við áhrifaaðila á mörkuðunum. Má þar nefna samstarf við spænska bjórframleiðandann DAMM, matvöruverslanir, virta kokkaskóla og einnig við kokka, blaðamenn og bloggara, sem boðið hefur verið hingað til lands.

Nánari upplýsingar um fundinn veita Bryndís Eiríksdóttir, bryndis@islandsstofa.is og Áslaug Guðjónsdóttir, aslaug@islandsstofa.is eða í síma 511 4000.

Hér að neðan má sjá upptöku frá fundinum 
 

Deila