Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
13. apríl 2018

Húsfyllir á ársfundi Íslandsstofu

Húsfyllir á ársfundi Íslandsstofu
Yfir 200 manns sóttu opinn ársfund Íslandsstofu sem haldinn var 12. apríl á Grand hótel Reykjavík.

Þema fundarins var „Vörumerkið Ísland" en þar fjallaði Robert Govers, sérfræðingur um orðspor og ímynd um virði ímyndar lands og þjóðar. Hann nefndi að ýmsir þættir geta haft áhrif á þessa ímynd og hversu hátt löndin skora í svokölluðum landavísum (e. Country Index). Sem dæmi eru vestræn ríki í öllum efstu sætunum í „Leading Countries Top 10 Nations", ásamt Japan. Þýskaland er efst á lista en þar á eftir koma Frakkland, Bretland og Kanada. Norðurlöndin eru ofarlega á lista í „The Good Country Index" sem tekur til sjö mismunandi þátta er varða framlög þjóða til alþjóðamála. Þar trónir Holland á toppnum, Danmörk er í þriðja sæti, Finnland í því fjórða og Svíþjóð vermir 6. sætið. Ísland er hins vegar í 27. sæti á þessum lista sem skýrist af stærstum hluta af lágu framlagi okkar til öryggis- og þróunarmála. Þá nefndi Robert mikilvægi sterkrar langtíma ímyndar landsins. Ef breytingar verða í landslagi stjórnmálanna, eða ef framin eru hryðjuverk, ræður sú langtíma ímynd miklu til um það hversu mikil áhrif slíkir atburðir hafa.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra ávarpaði fundinn og sagði m.a. í erindi sínu: „Ef við Íslendingar ætlum að viðhalda þeim lífskjörum sem við viljum búa við næstu áratugi þurfum við að auka útflutningsverðmæti okkar um einn milljarð króna í viku hverri. Það hljómar ansi bratt en ég tel það vel gerlegt. Grunnforsenda þess er hins vegar að allir aðilar sem tilheyra okkar stóra útflutningsneti, atvinnulíf og stjórnvöld gangi saman til leiks sem eitt sterkt lið; #TeamIceland. Við erum að spila á sterkum útivelli og megum hvergi slá slöku við.“

Í kynningu sinni fjallaði Bergþóra Halldórsdóttir, lögfræðingur hjá SA um alþjóðleg vörumerki og vörumerkjarétt í sögulegu samhengi. Talaði hún um ýmis þekkt vörumerki og merki landa og ræddi þar m.a. deilur íslenska ríkisins og vörukeðjunnar Iceland um einkaréttinn á nafninu.
Hér má nálgast kynningu Bergþóru

Daði Guðjónsson, verkefnisstjóri hjá Íslandsstofu sagði frá glænýrri viðhorfs- og vitundarkönnun sem gerð var á sex stórum markaðssvæðum, en þau eru Bandaríkin, Kanada, Bretland, Þýskaland, Frakkland og Danmörk. Niðurstöðurnar voru í örstuttu máli þær að yfir 70% svarenda voru jákvæðir gagnvart Íslandi sem áfangastað og 65% höfðu jákvætt viðhorf gagnvart vörum, vörumerkjum og þjónustu frá Íslandi. Þá kom Ísland vel út miðað við samanburðarlöndin (Noregur, Svíþjóð, Finnland, Kanada og Nýja Sjáland) hvað varðar ýmsa ímyndarþætti sem skoðaðir voru í könnuninni.
Hér má nálgast kynningu Daða

Þá skýrði Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu frá skýrslu stjórnar þar sem hann fór yfir starfsemi síðasta árs. Hér má nálgast ársskýrslu Íslandsstofu.

Fundarstjóri var Inga Birna Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri Kosmos & Kaos.

Við þökkum öllum gestum ársfundarins kærlega fyrir komuna!

Hér að neðan má sjá upptöku og ljósmyndir frá ársfundinum

Deila