Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
19. september 2018

Fjölmörg sóknarfæri í íslenskri ferðaþjónustu

Fjölmörg sóknarfæri í íslenskri ferðaþjónustu
Um 220 gestir sóttu fund Íslandsstofu sem fram fór í morgun á Hilton Reykjavík Nordica og bar heitið Markaðssókn í ferðaþjónustu: Hvað er framundan?

Einnig fylgdust fjölmargir með á netinu en fundinum var streymt beint á Facebook síðu Íslandsstofu.

Á fundinum var farið yfir strauma og stefnur og verkefnin framundan hjá Íslandsstofu og ýmis gögn kynnt sem gagnast geta fyrirtækjum í ferðaþjónustu í sinni markaðssókn.

Fyrst tók til máls Þórey Vilhjálmsdóttir, ráðgjafi hjá Capacent sem ræddi um strauma og stefnur í ferðaþjónustu. Að því loknu fræddi Daði Guðjónsson, verkefnisstjóri hjá Íslandsstofu viðstadda um þau gögn Íslandsstofu sem eru aðgengileg um erlenda markaði. Má þar nefna markhópa fyrir íslenska ferðaþjónustu, nýja skýrslu um tækifæri Norðurlandanna á kínverska ferðamarkaðinum og einkunn markaðssvæða en er þar um að ræða samþætt einkunnakerfi sem hugsað er sem ráðgefandi mat á erlendum markaðssvæðum fyrir íslenska ferðaþjónustu. Hér má nálgast kynningu Daða
María Björk Gunnarsdóttir, verkefnisstjóri hjá Íslandsstofu kynnti niðurstöður viðhorfskönnunar sem gerð var meðal erlendra söluaðila um íslenska ferðaþjónustu. Hér má nálgast kynningu Maríu
Sigríður Ragnarsdóttir, verkefnisstjóri hjá Íslandsstofu og tengiliður við Þýskalandsmarkað, ræddi um markaðsaðgerðir Íslandsstofu í Þýskalandi. Hér má nálgast kynningu Sigríðar
Að lokum tók til máls Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu og ræddi um það sem er framundan í markaðssókn Íslandsstofu. Hér má nálgast kynningu Ingu Hlínar.
Fundarstjóri var Björgólfur Jóhannsson, stjórnarformaður Íslandsstofu.

Fundinum var streymt á Facebook síðu Íslandsstofu og má sjá upptöku frá fundinum hér


Deila